Gildi Fossakots

Leiðarljós okkar í leikskóla LFA ehf. Fossakoti og Korpukoti er að skila til þjóðfélagsins námsfúsum og lífsglöðum börnum, með jákvætt viðhorf til samfélagsins. Börnum með sterka sjálfsmynd og heilbrigða siðferðiskennd. Börnum sem bera virðingu fyrir sjálfum sér og samfélaginu. Einkunnarorð leikskólans er „Það er leikur að læra“.

Lífsgildin

Rauði þráðurinn í starfi leikskólans er Lífsgildatré, þar sem lauf þess geyma lífsgildin. Þetta eru vinátta, virðing, hjálpsemi, kurteisi og samkennd. Hvert lífsgildi ræktum við með okkur tvo mánuði í senn. Á því tímabili sem hvert lífsgildi er tekið fyrir er laufi snúið við og í ljós kemur hvaða lífsgildi verður lögð höfuðáhersla á, á því tímabili.

Nýtt lífsgildi er afhjúpað í sameiginlegri söngstund og innleidd eru lög í barnahópinn sem innihalda þau hugtök sem við vinnum með hverju sinni. Við leggjum áherslu á lífsgildin markvisst með börnum leikskólans í samverustundum þar sem börnin geta tjáð sig og sínar skoðanir um hvað hvert lífsgildi felur í sér. Einnig rúmast lífsgildin innan allra námssviða, tækifærin eru allstaðar. Á ungbarnadeildum eru lífsgildin lögð inn í daglegum samskiptum eins og aldurssvarandi þroski og geta leyfir. Eftir því sem börnin þroskast yfirfæra þau þekkingu sína og hugtakaskilning lífsgildatrésins í félagsleg samskipti sín á milli og almennt.

Málstarf

Rík áhersla er lögð á málstarf á öllum deildum leikskólans og er unnið að því að dýpka orðaforða og skilning barnanna í daglegu starfi með markvissum leiðum málörvunar, bókalestri, vísum, þulum, söng og leik.

Um leið og barn hefur leikskólagöngu sína er unnið með kennsluefnið „Lubbi finnur málbeinið“ í skipulögðum Lubbastundum sem fara fram einu sinni í viku. Í þeim syngja börnin um málhljóðin með Lubba, en hver deild hefur til umráða sinn eigin Lubba-bangsa sem nýttur er í þessum stundum. Í bókinni um Lubba er hvert hljóð táknað með litlum og stórum bókstaf. Unnið er með hljóðin í þrívídd þ.e. sjónskyn, heyrnaskyn og hreyfi- og snertiskyn. Með því er verið að æfa börnin í að tileinka sér íslensku málhljóðin og brúa bilið milli stafs og hljóðs sem að lokum kemur börnum á sporið í lestri og ritun. Lubbaefnið gefur færi á ótal skemmtilegum og fjölbreyttum leikjum sem ýta undir hljóðanám, stafa-hljóðaþekkingu, hljóðavitund og fleiri undirstöðuþætti fyrir lestrarnám.

Á eldri deildum leikskólans er unnið með málþroskann í víðari skilningi og er þá félagsþroskinn efldur um leið. Leikskólinn vinnur með skráningarlistann TRAS og út frá honum hefur verið skipulagt málstarf þar sem unnið er með framburð, orðaforða, setningamyndun, athygli, einbeitingu, samleik, félagsfærni, málskilning og málvitund. Öll börn fara í svokallaðar TRAS – vinnustundir einu sinni í viku þar sem þau fá þjálfun í þessum þáttum í gegnum leik og spil. Eftir að henni lýkur skráir starfsmaður þroskaframfarir allra barnanna. Þannig eru gerða skráningar á öllum börnum einu sinni í viku.

Í daglegu starfi leikskólans er einnig mikil áhersla lögð á málörvun í söng- og samverustundum, með bókalestri og samtölum. Orð eru settar á allar athafnir og eiga starfsmenn samtöl við börnin allan daginn þar sem börnin eru hvött til að nota orð í stað bendinga. Að auki hefur leikskólinn reynt að gera ritmálið sýnilegt öllum börnum.